fimmtudagur, janúar 19, 2006

So long and thanks for all the fish...

Borgin heitir Kratie, hún er í norðaustur Kambódíu. Tók okkur heilan dag að komast þangað. Á leiðinni sáum við hrísgrjónakra, mikið ryk og einn bæ sem var rauðbrúnn, moldarbrúnn. Það var allt brúnt í bænum vegna moldarinnar. Bílar, hús, fólk, dýr, gróður. Á leiðarenda blasti við okkur bær með húsum með frönskum gluggum, en franskir gluggar eru algengir í þessu landi. Eftir að við vorum búin að skrá okkur inn á gistiheimili byrjaði ferðin. Þetta var beinn vegur, ferðin tók 40 mínútur. Á leiðinni voru hús til beggja hliða úr timbri. Þau voru á stilkjum, því þau voru öll byggð í brekku. Útsýnið var fallegt. Akrar á báðar hliðar fyrir aftan húsin. Bændur voru að yrkja. Vatnabuffalóar, hundar, hænur, gæsir, hestar. Heysátur. Sólin var heit. Allir heilsuðu okkur, hello hljómaði frá kátum börnum. Fullorðna fólkið brosti út í annað, sponskt á svipinn. Á leiðarenda stigum við um borð í bát. Bátsmaðurinn ýtti úr vör. Hann kveikti á mótornum. Mótorinn var með langan háls og á endanum var skrúfan. Við fórum út á miðja ánna og stímdum á móti straumi í nokkrar mínútur. Þegar við vorum komin ofar í ánni þá var slökkt á mótornum. Það var hljótt, ekkert nema vatnsniðurinn úr ánni og fjarlæg hljóð frá landi, beggja vegna árinnar. Sólin var heit, þó að komið væri eftirmiðdegi. Við skimuðum til allra átta og reyndum að sjá þá. Allt í einu heyrðust hljóð, bláshljóð. Við litum í áttina sem að hljóðið kom úr. Þarna voru þeir, höfrungarnir, sem við vorum komin til að heimsækja. Ferskvatnshöfrungar í miðri Mekong ánni. Við sátum um borð í bátnum í klukkutíma og fylgdumst með þeim. Við þurftum samt að vera dugleg að skima um til að sjá þá, þeir koma ekki alveg upp úr vatninu, heldur sér maður bara bakið á þeim og sporðinn þegar þeir koma upp á yfirborðið til að fá sér loft. Mögnuð upplifun. Magnað að sjá þessi sjaldgæfu dýr með eftirmiðdagssólina í baksýn. Í Mekong ánni eru um 80 dýr. Þeir finnast í þremur ám í Asíu, í Indónesíu, Myanmar og síðan í Kambódíu/Laos. Magnað. Á leiðinni til baka horfðum við á sólina vera að setjast. Þegar við komum aftur til Kratie setumst við niður fyrir framan Mekong ánna og horfum á sólina fjarlægjast úti við sjóndeildarhringinn, eldrauður bolti. Þegar sólin var sest fórum við heim í sturtu, ánægð með daginn. Ánægð að hafa hitt þá eftir þetta langa ferðalag.

2 Comments:

At 01:19, Anonymous Nafnlaus said...

Gunnar minn, þú ert snillingur. Mér fannst bara eins og ég væri að lesa skáldsögu.

Ertu kannski að skrifa skáldsögu þarna ?

Ég bíð bara spenntur eftir að þú póstir ljóði hingað ;)

Annars bið ég að heilsa, hér er allt á kaf í snjó, og enginn kemst neitt.

Kannski þú sendir okkur smá sólargeysla frá Kambódíu ? Þú hefur ekki gott af allri þessari sól.

Allavega þá sakna ég þín og jónu :**

 
At 12:13, Blogger Gunni said...

Skaldsaga eda ekki? Thad er spurningin. Allavega er lifid okkar thessa manudina skaldsogu likast. Nei thetta er satt, er bara ad profa nyjan frasagnarstill, med sma ljodraenu ivafi, gaman ef folk hefur gaman af. Thu matt alveg fa e-h af thessum hita, her er ekkert sma heitt og solin er brenn heit. Heitar kvedjur til Islands, Gunnar.

 

Skrifa ummæli

<< Home