þriðjudagur, apríl 25, 2006

Sprengingar í Dahab

Tekið af ruv.is:

Egyptaland: 23 létust í sprengjutilræðum
23 létu lífið og 62 særðust í sprengjutilræðum í ferðamannabænum Dahab á Sínaí-skaga í Egyptalandi síðdegis í gær. Enginn hefur lýst tilræðunum á hendur sér. Sprengjurnar sprungu með örstuttu millibili við veitingastaði og verslun við sömu götu í bænum. Að sögn egypska innanríkisráðuneytisins voru 20 þeirra sem fórust Egyptar, einn var Þjóðverji en ekki er vitað um þjóðerni tveggja. Yfir 40 þeirra sem særðust eru Egyptar, 20 eru útlendingar. Þeirra á meðal eru þrír Danir, þrír Bretar og tveir Ítalir. Að sögn bandaríska utanríkisráðuneytisins særðust fjórir Bandaríkjamenn. Íslensk hjón sem stödd eru á Sínaí-skaga eru óhult og létu vita af sér.
Að sögn lögreglu benda fyrstu athuganir til þess að sprengjunum hefði verið komið fyrir og að ekki hafi verið um sjálfsmorðstilræði að ræða. Mikill fjöldi ferðamanna er í Dahab ekki síst vegna þess að nýliðin helgi var páskahelgi koptísku kirkjunnar og austurkirkjunnar.
Þetta er í þriðja sinn sem hryðjuverkamenn ráðast á ferðamannastaði á Sínaí-skaga á innan við tveimur árum. 34 fórust í sprengjutilræðum í Taba og Ras al Sultan, norðan við Dahab, í október í hitteðfyrra og 67 létu lífið og yfir 200 særðust í sprengingum í Sharm el Sheikh, suður af Dahab, í júlí í fyrra. Í öllum þremur tilvikunum sprungu þrjár sprengjur með örstuttu millibili. Enginn hefur lýst tilræðunum í gær á hendur sér en egypsk yfirvöld telja að Bedúínar á Sínaí-skaga með tengsl við al Qaeda-hryðjuverkasamtökin hafi staðið fyrir tilræðunum í Taba og Sharm-el-Sheikh.

Þetta er virkilega sorglegt. Ég og Jóna vorum þarna fyrir rúmlega mánuði síðan. Við versluðum í matvörubúðinni þar sem þetta gerðist, löbbuðum margoft yfir brúnna (köfuðum meira að segja í sjónum fyrir neðan hana) , borðuðum morgunmat á veitingahúsunum tveimur við hliðinni á brúnni og gistiheimilið okkar var á móti þessum tveimur veitingastöðum rétt hjá brúnni. Sorglegast er að sjálfsögðu mannfallið. Annað sem er soglegt er núna ímynd svæðisins. Það má ætla að ferðaþjónusta í bænum sé hætt komin í langan tíma á eftir sem er mjög slæmt fyrir fólkið sem býr þarna, en ferðaþjónusta er þeim allt. Þetta er hrjóstugt en fallegt svæði og dýrðlegt að kafa þarna. Það má segja að þessi bær hafi verið orðið eina athvarfið á Sinai skaga sem átti sér ekki sögu af ofbeldi eða sprengjum. Nú er það allt breytt, nú koma ekki fleirri ferðamenn þarna í langan tíma og íbúar missa lifibrauðið. Sorglegt, sorglegt. sorglegt.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home