þriðjudagur, apríl 25, 2006

Að ferðast

Nú af því að þessi síða er tileinkuð ferðalögum verð ég bara að lýsa því yfir að mig langar að fara aftur til útlanda: NÚNA STRAX!!! Ég held að ég hafi komist í snertingu við backeríus ferdalangus í gær. Einkennin voru meðal annars brjálæðislegar áætlanir um ferðir til Kenya, Japan og Chile. Svo væri auðvitað gaman að fara eitthvað til Evrópu, helst á hljýjar slóðir þar sem væri hægt að skoða flottar byggingar og vera menningarlegur á söfnum og kaffihúsum. Ferðir til stórborga flugu í gegnum hugann, París, London, Köben, New York, svo mætti lengi telja. Eitt er víst, það er margt í boði. Það er hægt að gera allt sem mann langar. SVO fremi sem að maður eigi gommu af seðlum og nóg af fríi í vinnunni.
Eftir því sem á daginn leið dofnuðu áhrif bakteríunnar og ég fór að horfa jarðbundnari augum á lífið. Ég er nýkomin heim til Íslands eftir 6 mánaða fjarveru. Við Gunnar erum búin að fjárfesta í bíl og það er lúxusinn sem við ætlum að veita okkur næstu mánuðina. Og hana nú!
Annars er ég nú bara rosalega sorgmædd yfir atburðunum í Dahab í gærkvöldi. Ég lýsi yfir samúð með fórnarlömbum sprenginganna og segi að mér finnst þetta nú alveg vera hrikalega hallærislegt. Hættið nú að sprengja fólk, þetta er orðið allt of mikið! Plís

Sprengingar í Dahab

Tekið af ruv.is:

Egyptaland: 23 létust í sprengjutilræðum
23 létu lífið og 62 særðust í sprengjutilræðum í ferðamannabænum Dahab á Sínaí-skaga í Egyptalandi síðdegis í gær. Enginn hefur lýst tilræðunum á hendur sér. Sprengjurnar sprungu með örstuttu millibili við veitingastaði og verslun við sömu götu í bænum. Að sögn egypska innanríkisráðuneytisins voru 20 þeirra sem fórust Egyptar, einn var Þjóðverji en ekki er vitað um þjóðerni tveggja. Yfir 40 þeirra sem særðust eru Egyptar, 20 eru útlendingar. Þeirra á meðal eru þrír Danir, þrír Bretar og tveir Ítalir. Að sögn bandaríska utanríkisráðuneytisins særðust fjórir Bandaríkjamenn. Íslensk hjón sem stödd eru á Sínaí-skaga eru óhult og létu vita af sér.
Að sögn lögreglu benda fyrstu athuganir til þess að sprengjunum hefði verið komið fyrir og að ekki hafi verið um sjálfsmorðstilræði að ræða. Mikill fjöldi ferðamanna er í Dahab ekki síst vegna þess að nýliðin helgi var páskahelgi koptísku kirkjunnar og austurkirkjunnar.
Þetta er í þriðja sinn sem hryðjuverkamenn ráðast á ferðamannastaði á Sínaí-skaga á innan við tveimur árum. 34 fórust í sprengjutilræðum í Taba og Ras al Sultan, norðan við Dahab, í október í hitteðfyrra og 67 létu lífið og yfir 200 særðust í sprengingum í Sharm el Sheikh, suður af Dahab, í júlí í fyrra. Í öllum þremur tilvikunum sprungu þrjár sprengjur með örstuttu millibili. Enginn hefur lýst tilræðunum í gær á hendur sér en egypsk yfirvöld telja að Bedúínar á Sínaí-skaga með tengsl við al Qaeda-hryðjuverkasamtökin hafi staðið fyrir tilræðunum í Taba og Sharm-el-Sheikh.

Þetta er virkilega sorglegt. Ég og Jóna vorum þarna fyrir rúmlega mánuði síðan. Við versluðum í matvörubúðinni þar sem þetta gerðist, löbbuðum margoft yfir brúnna (köfuðum meira að segja í sjónum fyrir neðan hana) , borðuðum morgunmat á veitingahúsunum tveimur við hliðinni á brúnni og gistiheimilið okkar var á móti þessum tveimur veitingastöðum rétt hjá brúnni. Sorglegast er að sjálfsögðu mannfallið. Annað sem er soglegt er núna ímynd svæðisins. Það má ætla að ferðaþjónusta í bænum sé hætt komin í langan tíma á eftir sem er mjög slæmt fyrir fólkið sem býr þarna, en ferðaþjónusta er þeim allt. Þetta er hrjóstugt en fallegt svæði og dýrðlegt að kafa þarna. Það má segja að þessi bær hafi verið orðið eina athvarfið á Sinai skaga sem átti sér ekki sögu af ofbeldi eða sprengjum. Nú er það allt breytt, nú koma ekki fleirri ferðamenn þarna í langan tíma og íbúar missa lifibrauðið. Sorglegt, sorglegt. sorglegt.

mánudagur, apríl 24, 2006

Gargandi snilld

Sá tónlistarmyndina Gargandi snilld um daginn. Fín mynd um hjómsveitir og tónlist sem á að teljast "júník" (einstök) og mjög íslensk. Hér er spurning: Af hverju þurfa íslenskar bíómyndir alltaf að snúast upp í einhverja íslandskynningu með myndskeiðum af jöklum og eldgosum? Við löðum allavegna ekki fleirri þjóðverja og austurríkismenn til Íslands með þessu, þeir hafa séð Nonna og Manna og það er nóg til að þeir heillist. Það má alveg vera annað landslag í íslenskum bíómyndum en urð og grjót og hróstugleiki landsins. Alveg merkilegt hvernig íslenskir kvikmyndagerðamenn geta alltaf troðið þessu inn í allar myndir, eins og þetta sé einhvað möst fyrir það hvernig söguþráðurinn þróast.

Færeysk tónlistarhátíð

Ég og Frikki fórum á færeyska tónlistarhátíð á Nasa á laugardagskvöldið. Alveg ágætasta skemmtun þó að þetta hafi verið allt of langt. Þetta byrjaði klukkan 21 og ég hélt að þetta mundi vera búin í síðasta lagi klukkan 24, en nei nei færeyingar eru ekkert með hálfkák, tónleikarnir voru til 2 um nóttina. Ég var orðin soldið þreyttur þegar ég kom heim eftir að vera búinn að sitja í fimm tíma og hlusta á færeyskt rokk. Fyrst á svið steig reyndar íslenska bandið Dikta sem spilaði mjög flott rokk. Þá var komið að færeysku tónlistarmönnunum. Fyrst kom stúlka sem hét Lena og hún söng á amerísku, köntrý. Ekki minn bolli af tei en kannski höfðu einhverjir gaman af þessu. Svo kom hljómsveitin Marinus, sem söng líka á ensku. Týpískt rokk, skemmtilegast var hljómborð- og syntezeiser leikarinn sem var flottur gaur. Því næst var komið af Deja Vu með rauðhærðan söngvara innanborð sem var tveir + metrar á hæð. Þeir sungu á ensku, því miður. Þeir voru valdir besta hljómsvein á færeysku tónlistarverðlaununum og flagan þeirra (plata upp á færeysku) hefur verið sú mest selda þar í landi. Týpískt rokk, svona blanda af coldplay og U2. Þá var komið að Högna Lisberg sem er aðal hjartakrúsarinn þarna í færeyjum og þekktur um öll norðurlönd. Helvíti hress gaur með eigin hljómsveit. Hann spilaði skemmtilegt blússkotið rokk með smá dash af Dire Straits. Helvíti hresst eftir allt sem á undan var gengið. Loksins var svo komið að hljómsveitinni sem ég kom til að fylgjast með, Gestir. Ég sá þá í Fuglafirði á hljómsveitakeppni Færeyja 2003 þar sem þeir lentu í öðru sæti að mig minnir (var búin að fá mér nokkra Föreyja bjór). Í Færeyjum voru þeir að spila svona Sigurrós + Múm tónlist, mjög svalt. Á Nasa spiluðu þeir svoleiðis lög í bland við svona týpískt rokk. Ágætt, held ég þurfi bara að hlusta betur þegar þeir gefa út flögu núna í sumar. Besta við bandið er líka að þeir syngja á færeysku, mjög skemmtilegt. Þegar Gestir boru búnir var klukkan gengin í tvö en samt eitt band eftir. Við ákváðum að hinkra við til að sjá hvað kæmi. Stillt var upp tveimur hljóðnemum með ljósaseríum vafða í kringum stadívið. Svo kom á svið hallærisband sem heitir Makril, eða kannski var ég bara orðin þreyttur. Þetta var svona Korn dæmi eitthvað og söngvarinn var mjög hallærislegur með einhverjar geiflur og grettur með svarta hettu á höfðinu. Jæja annars var þetta mjög skemmtilegir tónleikar bara þó að þeir hefðu verið of langir. Lifi Færeyjar.

föstudagur, apríl 14, 2006

Páskapopp

Hversu mikil snilld er það að vera ný byrjaður að vinna aftur og fá síðan bara páskafrí strax. Það furðulega við þetta allt er að mér fannst ég alveg þurfa á þessu fríi að halda. Já það skemmir mann að vera hálft ár í útlöndum og eina sem maður þarf að hugsa um er á hvaða veitingastað maður á að borða næst (jæja ekki alveg svona einfalt) !!
Ákvað að eyða smá tíma í að poppa aðeins upp á þessa síðu. Afraksturinn varð að allir tenglarnir duttu út. En ég mundu nokkra og aðrir verða bara að vera á öldum ljósvakans án þess að ég sé að linka á þá. Páskarnir núna eru eiginlega jól fyrir mér. Var ekki hérna um jólin þannig að nú erum við Jóna í heimsóknum og matarboðum út um allt, alveg eins og maður gerir um jólin. Að lokum eins og Jóna sagði alltaf þegar hún var lítil: "Gleðilegt páskaegg."

miðvikudagur, apríl 12, 2006

Ég sakna útlanda

Já hér með er þetta opinbert. Ég sakna ferðarinnar og vildi að ég gæti farið aftur út og haldið áfram að ferðast. Það var gott að koma heim en núna er ég tilbúinn að fara á stað aftur. Ég er strax byrjaður að fá nostalgíu, hugsa um hluti sem ég sakna og væri til í að vera að gera. Ég er að spá í að hafa svona nostalgíuhorn. Rétt áðan langaði mig geðveikt að ég væri í Food court í MBK verslunarmiðstöðinni í Bangkok og gæti keypt mér Red Curry. Slurp það var svo gott og spicy. Food court er svona eins og stjörnutorgið í Kringlunni, nema bara miklu skemmtilegra. Maður fer fyrst og kaupir sér coupon hjá miðadömunum. Ég og Jóna keyptum vanalega fyrir 100 eða 150 bath og ef við eyddum ekki öllum coupon þá fengum við bara endurgreitt. Í Food court var risastórt svæði með fullt af básum sem seldu mat frá öllum Asíulöndum. Einn bás seldi kínverskan mat, einn seldi indverskan, einn seldi sushi, ein seldi bara svínakjöt, einn seldi núðlusúpur, einn seldi Tum Yum súpu og einn seldi uppáhaldið, kjúklingur í Red cueey og hrísgrjón. Hægt var að fá skammt fyrir 30 bath eða stærri skammt fyrir 40 bath (60 krónur) og þetta var yndislega gott á bragðið og mjög sterkt, þess vegna þurfti maður að slarfa hálfan líter að vatni niður með þessu. Öll vatnsdrykkjan var svo til þess að ég þurti oft að pissa vegna þess að maður svitnaði ekkert þarna inni, enda verslunarmiðstöðin loftkæld. Það er einmitt gaman að geta þess að það kostaði 1 bath að fara á klósettið. Það er einnig gaman að geta þess að í ferðinni þá fórum við held ég 5 sinnum í þessa verslunarmiðstöð (allt mismunandi daga) og eyddum þar slatta af pening og slatta af tíma. Það var fleirra hægt að gera í MBK heldur en að versla. Þarna var heilt kvikmyndahús en við fórum einmitt og sáum Memories of a Geisha, mjög góð, og þurftum að standa upp í byrjun sýningar til að sýna konungi Tælands hollustu okkar á meðan myndir af honum runnu yfir skjáinn. Þarna var líka internetstaður með flottustu leður lazyboy stólum sem ég hef séð, brjálað mikið af veitingastöðum og svo var það aðal. Þarna var hægt að fara í kareokí. Fullt af básum sem hægt var að loka og öskra úr sér lungun í kareokí, og enginn annar heyrði. Það var gaman, mjög gaman.

mánudagur, apríl 10, 2006

Þá byrjar ´etta

Ég ætla að byrja hérna á einu klassísku efni, hvað ég gerði um helgina. Gott að taka svona smá æfingu til að koma sér í réttan gír fyrir bloggið. Þetta var mjög skemmtileg helgi. Eftir vinnu á föstudaginn fór ég heim fullur tilhlökkunar og beið eftir að píparinn mundi kíkja í heimsókn. Ég og Jóna vorum s.s. að kaupa okkur þvottavél og það þurfti að tengja hana. Var búinn að kíkja í BYKO deginum áður og kaupa hálf tommu galvaneserað N-hné, 4 cm framlengingu og skrúfukrana (líka hálftommu). Píparinn kom svo og við byrjuðum á því að taka vatnið af öllum stigaganginum, hressandi svona á föstudagseftirmiðdegi, líklegt að allir hafi verið kátir með þetta. Píparinn var reyndar ekki lengi að þessu þannig að vatnið komst fljótt á aftur. Þvottavélin virkar og við erum að reynslukeyra hana ennþá þar sem það er ennþá hálf skrítin lykt af vatninu. Eftir pípulagningarnar þá lá leiðin í partý. Fyrst kíktum við til Þorgeirs bróður og fjölskyldu og röbbuðum við þau. Þorgeir sturtaði hvítvíni og bjór í Jónu þannig að hún var orðin vel upphituð þegar við fórum í hitt partýið, en það var afmælispartý hjá vinkonu Jónu sem heitir María. Fínt þar þangað til að heyftarlegt kattarofnæmi sló mig úr leik. Ég vaknaði hress á laugardag og skellti mér í Sporthúsið og í klippingu á eftir. Svo skelltum við Jóna okkur í smá leiðangur og fjárfestum í sjónvarpsskáp frá Hirzlunni. Ég var til 1 á laugardagskvöldið að setja hann saman og var orðin mjög þreyttur þegar þetta var búið (skemmtilegt laugardagskvöld !!). Á sunnudaginn fórum við í brunch til Hildugunnar og Villa og hittum fullt af skemmtilegu fólki. Seinna um daginn skelltum við okkur til Hveragerðis og keyrðum þangað í niðaþoku á leiðinni. Heimsóttum ömmu á NLFÍ. Svo fórum við í mat til Stebba bróður og fjölskyldu að Gili og fengum frábært íslenskt læri. Tókum með okkur heim í gjöf forláta niðurskurðarvél. Kann ekki að lýsa þessari maskínu en hún er nokkru minni en hrærivél og getur rifið og skorið niður margar tegundir af grænmeti og ávöxtum, ost og ábyggilega margt fleirra. Þetta er solid græja úr stáli sem gerir kraftaverk.
Jæja svona var helgin hjá mér og Jónu, ekki alveg eyðimerkursafarí á kameldýri, köfunarferð um kóralrif í Rauða hafinu eða hossandi rútuferð í troðfullum bíl af Sri Lanka búum þar sem hindútónlist hljómar en vonandi finnst einhverjum þetta spennandi. Er þetta annars ekki svona týpískt íslenskt mánudagsblogg?

Ekki hætta að lesa

Ég er búinn að ákveða að halda áfram með þetta blogg og skrifa hérna um daginn og veginn og hvað á daga mín drífur. Augljóslega verða áherslubreytingar þar sem maður er ekki að skoða musteri, heimsækja múslima eða hossast um í lélegum rútum. Mér til ómældrar ánægju þarf ég heldur ekki lengur að hafa áhyggjur af moskítókvikindunum og get sofið með opinn glugga og útlimi út fyrir sængina. Þannig að haldið endilega áfram að kíkja inn á síðuna og hafa áhuga fyrir því sem ég og Jóna erum að gera, þó að sögurnar verða ekki eins framandi. Hver segir að heimsókn til ömmu, hvaða mynd maður sá í bíó eða hvað maður keypti í Bónus sé ekki krassandi efni? Ég skal lofa ykkur einu að það er að ég skal aldrei minnast á þetta leiðinlega Baugsmál og að fjölmiðlafrumvarpið verður ekki á dagskrá hérna heldur.

sunnudagur, apríl 02, 2006

Margt að gerast

Núna er rúmlega tvær vikur síðan við komum heim. Fyrir mig eru þetta búnar að vera krefjandi vikur, það er búið að vera svo mikið að gera og mikið að hugsa um.
Forgangsatriðið þegar heim var komið fyrir mig var að fá vinnu. Ég er búinn að eyða miklum tíma í að sækja um vinnur og fara í atvinnuviðtöl. Mér hefur verið boðin tvö störf en þau voru annaðhvort með lélegum launum og lélegum vinnutíma eða ég átti að vera eini starfsmaðurinn og gat skotið í mat í korter. Ég afþakkaði. Margir hafa ekki svo mikið sem svarað mér til baka, algjör ókurteisi. Eitt fyrirtæki vildi mig ekki því ég þarf bara vinnu þangað til í haust. Á þriðjudag og miðvikudag í síðustu viku var ég orðin mjög stressaður yfir að vera atvinnulaus. Á fimmtudaginn fékk ég vinnu sem hentar mér mjög vel. Mér til mikillar gleði var ég velkominn til Símans aftur, í tímabundið starf til haustins. Ég er að fara að vinna með tveimur fólki sem ég var að vinna með á farsímasviðinu. Þau eru að sjá um semja við farsímafyrirtæki erlendis og búa til GSM reikisamninga fyrir Símann. Ég er s.s. að fara að leggja mitt að mörkum til að koma á farsímasambandi við önnur lönd eins og Pakistan, Trinidad og Tobago og Oman. Ég er að vinna á tæknisviði og er titlaður sérfræðingur, hundskemmtilegt allt saman. Ég er með sama GSM númer og ég var með síðast hjá Símanum, 8967887.

Annað sjónarhorn

Keyptum okkur kippu af Thule bjór í gleri á föstudaginn. Um kvöldið ákvað ég að smakka mjöðinn og hellti honum í glas. Fannst flaskan eitthvað skrítin, eitthvað svo lítil. Ég rýni á miðann á flöskunni og jú jú þetta eru 500 ml en samt var flaskan eitthvað svo lítil. Svo rann það upp fyrir mér, allir bjórarnir úti voru 65o ml, stórir hlunkar. Núna þegar heim er komið finnst mér hálfur líter bara lítið. Skrítið hvað eitt stykki ferð til Asíu gerir allt á Íslandi lítið!!!